Blöðin

Stjórn Geðhjálpar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á heilbrigðisráðherra að lækka komugjöld til geðlækna í fyrirliggjandi frumvarpi um sjúktratryggingar. „Ef frumvarpið verður að lögum hækkar meðalkostnaður öryrkja við geðlæknisþjónustu úr um 20.000 kr. í 63.500 kr. eða um 43.000 kr. á ári. Stjórnin lítur svo á að stefna beri að því að íslensk heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og því eigi ekki að þyngja byrðar öryrkja og almennings eins og gert er með frumvarpinu. Öryrki með geðfötlun leitar að meðaltali sex sinnum til sjálfstætt starfandi geðæknis og nokkrum sinnum til lækna á heilsugæslu og sjúkrahúsum á hverju ári.“
Nýr vefur Skessuhorns fer í loftið í dag. Vera kann að meðan færsla hans stendur yfir geti komið rof um tíma, eða gamli vefurinn komið upp aftur. Lesendur eru beðnir að sýna því biðlund meðan á færslutímanum stendur. Nýr vefur byggir á Open source forritun og er um margt ólíkur eldri fréttaveitum Vesturlands. Vefurinn er forritaður og gerður hjá Skessuhorni. Þá vinnu önnuðust vefhönnuðurnir Sigurður Sigbjörnsson og Þórarinn Ingi Tómasson, starfsmaður Skessuhorns. Við hönnun nýs vefjar var tekið mið af því að hann yrði snjalltækjavænn, fyrir spjaldtölvur og síma, auk þess að henta fyrir hefðbundnar tölvur. Þrátt fyrir að búið sé að opna vefinn á eftir að forrita og setja inn ýmsar veflausnir sem munu smám saman bætast við á næstu misserum. Í því samhengi má segja að endanlegri hönnun lýkur aldrei. Ástæða er til að benda lesendum á að skrá þarf viðburði sem fólk óskar eftir að birta á vef og í blaði Skessuhorns í gegnum vefsíðuna. Viðburðaskrá er ekki lengur tengd skrám sveitarfélaga enda byggja þau veflausnir sínar á nokkrum ólíkum vefumsjónarkerfum. Lesendur geta skráð smáauglýsingar í gegnum vefinn (með myndum) þeim að kostnaðarlausu sé ekki um atvinnutengda starfsemi að ræða. Meðal nýjunga má nefna nýburaskrá og þá er einnig boðið upp á skráningu dánartilkynninga á vef og í blað, en þá þurfa aðstandendur að senda mynd og texta í gegnum tölvupóst [email protected]. Vonandi njóta lesendur Skessuhorns nýs vefjar, en allar góðar og gagnlegar ábendingar óskast sendar á netfangið: [email protected]
„Vegna óvæntrar óvissuferðar starfsfólks Ráðhússins verður ráðhúsinu lokað kl 13:00,“ segir í tilkynningu á vef Stykkishólmsbæjar. Hlutaðeigandi biðjast afsökunar á því.
Styrktarsjóður Kiwanisumdæmisins Ísland/Færeyjar og kiwanisklúbbarnir Elliði, Eldey, Esja, Hekla og Dyngja gáfu fyrr í vikunni Lucas2 hjartahnoðtæki til notkunar í þyrlum Landhelgisgæslunnar. Fór afhendingin fram á þyrlupallinum við Landspítalann í Fossvogi. Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar veitti tækinu viðtöku fyrir hönd Landhelgisgæslunnar ásamt áhöfnum þyrla Landhelgisgæslunnar. Tækið sem Kiwanis gaf mun skipta sköpum í umönnun sjúklinga um borð í þyrlunum. Tækið sem kostar á þriðju milljón króna hefur verið í notkun víða um land með afar góðum árangri, þar af í sjúkrabifreiðum á Vesturlandi. Tækið getur leyst af hólmi einn mann um borð í þyrlunum þegar endurlífgun á sér stað, sem annars hefði þurft að sinna hjartahnoði. Getur hann þá sinnt öðrum málum í tengslum við umönnun sjúklinga um borð. Tækið veitir alltaf jafnt og gott hnoð og þreytist ekki, ólíkt mannshöndinni. Tækið er færanlegt milli véla sem eykur enn frekar notagildi þess.
Kraftur í púttinu hjá eldri borgurumUm tuttugu eldri borgarar í Borgarbyggð hafa æft pútt af kappi í allan vetur í skemmtilegri aðstöðu í gamla sláturhúsinu í Brákarey sem Glolfklúbbur Borgarness og eldri borgar hafa komi sér þar upp og kalla Eyjuna. Vetraræfingarnar enduðu með þriðja forgjafarmótinu í vetur þriðjudaginn 26. apríl. Þátttakendur voru 15 talsins en leiknar voru 36 holur. Hlutskarpastur án forgjafar varð Þórhallur Teitsson með 54 högg. Annar varð Þorbergur Egilsson með 57 högg og þriðji Ingimundur Ingimundarson einnig með 57 högg. Lilja Ólafsdóttir varð fyrst með forgjöf á 54 höggum. Jytta Juul varð önnur einnig með 54 högg og Guðrún B. Haraldsdóttir var þriðja með 55 högg. Nú stefnir pútthópurinn á að hefja æfingar utan húss því mörg skemmtileg verkefni bíða hópsins í sumar.
Fulltrúar Saga Jarðvangs í Borgarfirði, þau Edda Arinbjarnar, Þórður Kristleifsson og Krisján Guðmundsson, hittu byggðarráð Borgarbyggðar á fundi í síðustu viku og kynntu fyrir sveitarstjórnarfulltrúm stefnumótun í útivist og ferðaþjónustu á jarðvangssvæðinu í uppsveitum Borgarfjarðar. Auk þess sögðu þau frá umsókn Saga jarðvangs sem lögð var inn til Unesco fyrir síðustu jól. „Þetta eru stórar skýrslur og hafa fengið góðar viðtökur ytra. Okkur barst svo bréf um daginn frá Unesco þar sem forsvarsmenn samtakanna fagna umsókninni. Við tökum síðan á móti tveimur úttektaraðilum í sumar. Við erum bjartsýn og teljum að við séum komin með annan fótinn inn hjá Unesco sem er gríðarlegur árangur. Ef vel tekst til þá verðum við í kjölfarið samþykkt,“ segir Edda. „Að fá viðurkenningu eða stimpil Unesco á jarðvangi hér yrði mikil lyftistöng fyrir Borgarfjörð og raunar Vesturland allt. Það yrði mikilvægt fyrir byggðarþróun en ekki síst gott fyrir markaðssetningu á ferðaþjónustu,“ segir Edda. Saga Jarðvangur hefur nú ráðið Önnu Margréti Guðjónsdóttur í tímabundið starf verkefnisstjóra. Anna Margrét skrifaði Unesco skýrsluna og mun nú undirbúa komu fulltrúa samtakanna hingað til lands í sumar.
Strekkings vindur er á nokkrum stöðum á Vesturlandi. Á Kjalarnesi gengur á með sterkum hviðum og fór vindur hæst í 45 m/sek í morgun. Þar fauk húsbíll útaf vegi og eyðilagðist. Í Staðarsveit á Snæfellsnesi er einnig drjúghvasst að norðan. Vegfarendur eru hvattir til að sýna gát og fylgjast með veðurlýsingum á sjálfvirkum veðurstöðvum.
Svana Hrönn Jóhannsdóttir tók að sér starf íþrótta- og tómstundafulltrúa hjá Dalabyggð í mars síðastliðnum. Svana er menntaður íþróttafræðingur og mörgum kunn fyrir framúrskarandi árangur í glímu og hefur hún m.a. hampað Freyjumeninu sex sinnum. Það er ýmislegt framundan í nýju starfi, skipulag á íþróttastarfi sumarsins, tómstundaviðburðir og bæjarhátíðin Heim í Búðardal. Fréttaritari Skessuhorn tók Svönu Hrönn tali og má lesa spjall við hana í blaðinu sem kom út í dag.