Nýr vefur Skessuhorns fer í loftið í dag. Vera kann að meðan færsla hans stendur yfir geti komið rof um tíma, eða gamli vefurinn komið upp aftur. Lesendur eru beðnir að sýna því biðlund meðan á færslutímanum stendur.
Nýr vefur byggir á Open source forritun og er um margt ólíkur eldri fréttaveitum Vesturlands. Vefurinn er forritaður og gerður hjá Skessuhorni. Þá vinnu önnuðust vefhönnuðurnir Sigurður Sigbjörnsson og Þórarinn Ingi Tómasson, starfsmaður Skessuhorns. Við hönnun nýs vefjar var tekið mið af því að hann yrði snjalltækjavænn, fyrir spjaldtölvur og síma, auk þess að henta fyrir hefðbundnar tölvur. Þrátt fyrir að búið sé að opna vefinn á eftir að forrita og setja inn ýmsar veflausnir sem munu smám saman bætast við á næstu misserum. Í því samhengi má segja að endanlegri hönnun lýkur aldrei.
Ástæða er til að benda lesendum á að skrá þarf viðburði sem fólk óskar eftir að birta á vef og í blaði Skessuhorns í gegnum vefsíðuna. Viðburðaskrá er ekki lengur tengd skrám sveitarfélaga enda byggja þau veflausnir sínar á nokkrum ólíkum vefumsjónarkerfum. Lesendur geta skráð smáauglýsingar í gegnum vefinn (með myndum) þeim að kostnaðarlausu sé ekki um atvinnutengda starfsemi að ræða. Meðal nýjunga má nefna nýburaskrá og þá er einnig boðið upp á skráningu dánartilkynninga á vef og í blað, en þá þurfa aðstandendur að senda mynd og texta í gegnum tölvupóst
[email protected]. Vonandi njóta lesendur Skessuhorns nýs vefjar, en allar góðar og gagnlegar ábendingar óskast sendar á netfangið:
[email protected]